Val á dúnsængum

Hér að neðan eru nokkur atriði sem er gott að hafa í huga áður en þú velur þér draumadúnsængina. 

  1. 100% dúnn og ekkert fiður.  Dúnsængin ætti að vera 100% dúnn og ekkert fiður.  Ástæðan er sú að dúnn heldur á okkur hita, hann er rakadrægur og einstaklega léttur.  Fiður er ekkert annað en fyllingarefni og gerir lítið fyrir okkur nema þyngja dúnsængina.  
  2. Dúnhreinsunin er mikilvæg.  Dún er hægt að hreinsa með hita og með kemískum efnum. Þegar dúnn er hreinsaður með kemískum efnum er líklegt að efnin sitji eftir þegar dúnninn þornar.  Með því að hreinsa dúninn án allra kemískra efna höldum við ofnæmisvöldum frá sænginni.  Rannsóknir hafa sýnt að fólk er ekki með ofnæmi fyrir dúni heldur óhreinindum í dúninum, s.s. ryk og önnur efni sem koma úr náttúrunni.
  3. Hólfuð dúnsæng.  Eftir að dúnninn hefur verið hreinsaður er honum komið fyrir í hólfum í sænginni. Með því að dreifa dúninum í sænginni færist dúnninn ekki til, það verður auðveldara að þvo sængina og hún verður mun þægilegri.  Ungbarnasængur (stærð 70×100) ættu að vera hólfaðar.  Þá getur barnið ekki fært dúninn til og sængin verður ekki þykkri en sem nemur hverju hólfi.
  4. 100% bómull.  Mikilvægt er að velja vandaða bómull sem fer utan um sængina.  Hlutverk bómullar er að halda dúninum á sínum stað.  Bómullin spilar einnig stórt hlutverk því hún dregur í sig raka sem dúnninn tekur síðan við.  Góð dúnsæng er því 100% dúnn & 100% bómull.
  5. Þyngd.  Góð dúnsæng ætti að vera hlý, létt og einstaklega rakadræg.  Létt sæng sem er eingöngu fyllt með dúni er létt og liggur því létt á þér.  Þegar þú losar svita/raka þá dregur sængin í sig rakann og þá upplifir þú betri svefn.  Mikilvægt er að dúnsængin innihaldi engin gerviefni því þau eru ekki rakadræg.  Gerviefni eru líklegri til að auka svitamyndun hjá fólki þar sem efnið getur ekki „andað.“
  6. Gæði.  Gert er ráð fyrir að góð sæng sé í fullum gæðum næstu 10-12 ár.  Með réttri umhirðu er að sjálfsögðu hægt að lengja líftímann umtalsvert. 
  7. Þvottalýsing.  Vandaða dúnsæng er hægt að þvo heima. Mikilvægt er að þurrka hana í þurrkara.  Með því að þvo dúnsængurnar heima getur þú stýrt hversu mikið þú notar af þvottaefni.  Við mælum með að þú notir lítið þvottaefni því dúnsængin ætti að vera laus við kemísk efni.
  8. Verð.  Dúnsængur eru oftast verðlagðar út frá dúnmagni. Það er því mikilvægt að skoða hversu mikið magn af dúni er í sænginni, hvernig dúnninn er hreinsaður og hvað er saumað utan um sængina. 
  9. Vönduð rúmföt.  Vönduð dúnsæng er hlý, létt og rakadræg.  Til að sængin nái að uppfylla þessi skilyrði er mikilvægt að velja vönduð rúmföt sem eru ofin úr 100% bómull. Það er jú mikilvægt að dúnsængin nái að draga allan raka í gegnum rúmfötin. 

Ef dúnsængin uppfyllir þessi 9 atriði hér að ofan er líklegt að þú hafir valið þér góða dúnsæng sem á eftir að færa þér góðan svefn til lengri tíma. 

Smelltu hér til að lesa um dúnsængur Lín Design.