Þvottaleiðbeiningar
Markmið okkar er að hanna vandaðar vörur sem gleðja og veita vellíðan. Bómullarvörur Lín Design eru framleiddar úr sérvalinni bómull sem er einstaklega vönduð og mjúk. Til að ná sem mestri mýkt, og til að viðhalda gæðum vörunnar, bendum við á þvottleiðbeiningar hér að neðan.
SÆNGURFATNAÐUR (100% bómull)
- Æskilegast er að þvo bómullina við 40°c, ekki ofhlaða þvottavélina.
- Notaðu þvottaefni sem inniheldur ekki klór.
- Ef sængurverin eru með útsaum þá er gott að snúa þeim við og þvo á röngunni.
- Við mælum ekki með mýkingarefni í þvottinn þar sem efnasambönd í mýkingarefninu verða til þess að bómullin dregur minna í sig af vatni og þá mýkist sængurfatnaðurinn síður. Í stað mýkingarefnis er hægt að nota örlítið af ediki sem virkar mjög vel.
- Til að forðast krumpur er gott að stilla á þvottaprógram með lítilli vindu í fyrstu skiptin sem þú þværð rúmfötin.
- Þegar þvotti er lokið, togaðu efnið til á meðan það er blautt.
- Ef þú notar þurrkara, stilltu á minnsta hita. Við mælum með að efnið sé tekið út áður en það nær fullum þurrk til að draga úr krumpum í efninu.
- Gera má ráð fyrir að bómull minnki um 3-5% við fyrsta þvott/þurrkun (miðað við þvott á 40°c). Ef þvegið er á hærri hita má gera ráð fyrir allt að 7% minnkun á efni.
- Bómull þolir háan hita en hærri hiti framkallar meiri krumpur í efninu.
- Mun auðveldara er að strauja raka bómul.
- Aðskiljið hvítan og litaðan þvott þar sem litað efni er líklegt til að gefa frá sér lit við fyrsta þvott.
- Bómull er viðkvæm fyrir sólarljósi. Skíni sólarljós á sængurfatnað má gera ráð fyrir að mynstur sængurversins dofni með tímanum. Sólarljós getur einnig upplitað efni.
- Forðastu að þurrka þvott í svefnherbergi ef þú notar dúnsængur. Raki úr þvottinum getur farið í sængurnar þar sem dúnn er mjög rakadrægur.
Bómull er sterkt efni sem er teygjanlegt og lifandi. Það krumpast meira en gerfiefni en munurinn er sá að bómullin færir þér meiri mýkt og vellíðan. Ef rúmföt eiga að vera straufrí þá þurfa að vera gerviþræðir (gerviefni) í efninu. Gerviefnin draga úr mýkt og eru líklegri til að hnökra. Þess vegna eru engin gerfiefni í rúmfötum frá Lín Design. Til að draga úr krumpum í efninu er heppilegast að þvo / þurrka við lægri hita. Hár hiti framkallar krumpur og dregur úr gæðum sængurfatnaðarins til lengri tíma.
BARNAFÖT (100% bómull)
- Þvoið ekki saman ólíka liti.
- Gera má ráð fyrir 2-4% minnkun á þvotti sem framleiddur er úr 100% bómull.
- Þvoðu aldrei á hærri hita en 40°c í fyrsta þvotti.
- Ekki þurrka fötin í þurrkara eftir fyrsta þvott – mikill hiti getur minnkað efnið um 5-7%
- Notaðu þvottaefni sem inniheldur ekki klór.
- Því fyrr sem þú þværð óhreinan þvott, því líklegra er að þú náir óhreinindunum úr efninu.
- Hærri hiti, hvort sem er í þvotti eða þurrkun, framkallar meiri krumpur í efninu.
- Til að forðast krumpur er gott að stilla á þvottaprógram með lítilli vindu.
- Þegar þvotti er lokið, togaðu efnið til á meðan það er blautt.
- Forðastu að nota mýkingarefni á bómullarvörur. Mýkingarefni ætti eingöngu að nota til að afrafmagna gerviefni. Hægt er að nota edik í stað mýkingarefnis.
- Ekki ofhlaða þvottavélina.
- Heppilegt er að þvo þvott á röngunni, sérstaklega litaðan þvott. Það fer betur með þvottinn á meðan á þvottinum stendur og dregur úr líkum að þau hnökri.
DÚKAR (100% pólíester)
Dúkar úr gerviefnum eru afar auðveldir í umhirðu, þá má setja í þvottavél og þurrkara og þeir eru straufríir. Auk þess er auðveldara að ná erfiðum blettum úr gerviefnum. Pólíester dúkarnir frá Lín Design draga ekki í sig vökva.
- Notaðu þvottaefni sem inniheldur ekki klór
- Dúkarnir eru framleiddir úr fráhrindandi efni, það er því auðveldara að ná blettum úr efninu.
- Við mælum með litlu magni af mýkingarefni til að afrafmagna dúka í þvotti (eingöngu fyrir dúka sem eru framleiddir úr políester).
- Dúkarnir eru úr straufríu efni og þola því þurrkara (minnsta hitastig).
- Sólarljós getur framkallað upplitun ef þvottur hangir lengi utandyra.
DÚNSÆNGUR(100% dúnn & 100% bómull)
- Áður en dúninum er komið fyrir í sængunum er hann hreinsaður með öflugum hreinsivélum. Dúnninn er þveginn og hreinsaður til að draga úr líkum á að ryk og önnur óhreinindi verði eftir í honum, sem geta valdið astma og ofnæmiseinkennum.
-
Við mælum með reglulegum þvotti á sænginni til að ná húðfitu og utankomandi raka úr sænginni, við þvott lyftist dúnninn upp og sænginn verður enn meira fluffy
- Rannsóknir sýna að fæstir eru með ofnæmi fyrir dúninum heldur óhreinindum sem finnast í sængum.
- Engin gerviefni né fiður er að finna í sængunum frá LínDesign og því er hægt að þvo þær í þvottavélum. Mælt er með þvotti í stað hreinsunar þar sem fitusambönd í dúninum eiga til með að taka til sín kemísk efni sem finnast í hreinsivökva sem notaður er við hreinsun. Dúnn hrindir frá sér vatni og því verða sængurnar ekki þungar við þvott.
- LínDesign sængurnar má þvo á 40°c (stutt þvottaprógram). Nauðsynlegt er að setja sængina í þurrkara að loknum þvotti.
- Mælt er með að nota um 1/3 af venjulegum þvottaefnisskammti. Ekki er mælt með að nota mýkingarefni.
- Mikilvægt er að þurrka dúninn vel því annars er hætta á að hann mygli.
- Blautur dúnn hefur auðþekkjanlega lykt sem hverfur þegar dúnninn er orðin þurr. Betra er að þurrka sængurnar við minni hita til lengri tíma. Æskilegt er að hitastigið í þurrkaranum fari ekki yfir 60°c.
- Gott er að setja tennisbolta með sænginni í þurrkarann þar sem boltinn hjálpar við að slá lofti í sængina á ný.
- Þar sem ytra byrði sængurinnar er úr úrvals 100% bómull, má búast við að efnið dragist saman um 3-5% eftir fyrsta þvott og þurrkun.
- Dúnninn er saumaður í hólf sem heldur dúninum á sínum stað. Hólfin eru þannig hönnuð að dúnninn geti lyft sér svo sem mest einangrun fáist úr dúninum..
- Ekki er mælt með að nota ryksugu á sængina.
- Viðraðu dúnsængina reglulega. Það er ekki heppilegt að viðra dúnsæng utandyra ef rakastig er hátt, þá dregur sængin í sig raka í stað þess að losa raka.
Handklæði (100% bómull)
- Handklæðin frá Lín Design eru hringofin úr þéttri bómull sem mýkist einstaklega vel
- Áður en ný handklæði eru þvegin í fyrsta sinn er gott að láta þau liggja yfir nótt í köldu vatni.
- Við mælum ekki með mýkingarefni þar sem efnasambönd í mýkingarefninu verða til þess að bómullinn dregur minna í sig af vatni.
- Mestu gæðin nást þegar handklæðin hafa verið þvegin í nokkur skipti.
- Handklæðin þéttast þegar þau eru þvegin. Gott er að þurrka handklæðin í þurrkara.
- Ekki er mælt með því að fólk með ofnæmi hengi handklæði til þerris utandyra þar sem þau geta dregið í sig ofnæmisvalda.
- Vönduð handklæði mýkjast með tímanum og eru að þéttast fyrstu skiptin sem þau eru þvegin.
ALMENNAR ÞVOTTALEIÐBEININGAR
- Þvoðu koddaver og sængurver saman.
- Því fyrr sem þú þværð óhreinan þvott, því líklegra er að þú náir óhreinindunum úr efninu.
- Þvoðu sængurfatnað áður en þú notar hann í fyrsta sinn. Sængurfatnaðurinn mýkist þegar hann er þveginn.
- Gera má ráð fyrir 2-3% minnkun á þvotti sem framleiddur er úr 100% bómull. Þvoðu því aldrei á hærri hita en 40 gráður í fyrsta þvotti.
- Hærri hiti, hvort sem er í þvotti eða þurrkun, framkallar meiri krumpur í efninu.
- Þegar þvotti er lokið, togaðu efnið til á meðan það er blautt.
- Forðastu að nota mýkingarefni á bómullarvörur. Mýkingarefni ætti eingöngu að nota til að afrafmagna gerviefni. Hægt er að nota edik í stað mýkingarefnis.
- Þvoðu einstaka sinnum á 60 gráðum til að hreinsa þvottavélina.
- Ekki ofhlaða þvottavélina, mælum með að þvo eitt sængurverasett í einu.
- Mun auðveldara er að strauja raka bómul.
- Heppilegt er að þvo þvott á röngunni, sérstaklega litaðan þvott. Það fer betur með þvottinn á meðan á þvottinum stendur.
- Gerviefni geta hnökrað í þvotti. Það gerist vegna núnings milli þvottsins og tromlunnar. Til að draga úr líkunum á að þvotturinn hnökri er best að þvo á röngunni og setja ekki mikið í vélina. Þá er þvotturinn alltaf í nægu vatni í stað þess að nuddast saman hálf rakur sem verður til þess að efnið hnökrar.
BLETTAHREINSUN – nokkur góð ráð!
Því fyrr sem efnið er þvegið því líklegra er að bletturinn náist úr efninu. Oftast reynist erfiðara að ná blettum úr þétt ofinni bómull samanborið við gisna bómull. Ekki nota mjög heitt vatn á bletti, byrjaðu með volgu vatni. Heitt vatn getur fest blettinn frekar í efninu. Varist að nudda vatninu í efnið, bleytið frekar og notið síðan eftirfarandi ráð.
Stundum er auðveldara að ná blettum úr nýju efni samanborið við eldra efni. Ástæðan er sú að þræðir í eldra efni verður grófara með tímanum og þá festast blettir auðveldara í efninu. Í nýju efni eru þræðirnir sléttir & mjúkir og því festast blettir síður í efninu.
Matarblettir / fitublettir. Notið fyrst blettahreinsi á efnið. Ef bletturinn er áfram til staðar er hægt að blanda edik í vatn sem síðan er notað sem blettahreinsir. Þvoið síðan í þvotti samkvæmt leiðbeiningum á vöru.
Kaffi & te. Gott ráð er að hella salti yfir blettinn. Síðan er mikilvægt að koma efninu í kalt vatn sem allra fyrst. Því fyrr sem þú kemur efninu í vatn, því líklegra er að bletturinn náist af. Látið efnið liggja í köldu vatni í um 30 mín áður en efnið er síðan þvegið samkvæmt leiðbeiningum á vöru.
Rauðvínsblettur. Því fyrr sem þú vinnur í blettinum því líklegri ertu til að ná árangri. Fyrsta skrefið er að þurrka upp eins mikið og þú getur af blettinum. Ef hvítvín er til staðar er gott að hella örlitlu magni yfir blettinn. Helltu síðan salti eða lyftiduft á blettinn. Þvoðu síðan dúkinn samkvæmt leiðbeiningum á vöru.
Barnamatur. Leggðu í bleyti í volgu vatni í minnst 2 klukkustundir, þvoðu síðan samkvæmt leiðbeiningum á miða.
Blóð. Skolaðu blettinn strax með köldu vatni. Ef bletturinn er þurr þá er hægt að leggja hann í bleyti (með þvottaefni) í nokkrar klukkustundir áður en hann er þveginn. Þvoðu svo eins og venjulega.
Kaffi & te. Láttu liggja í bleyti í köldu vatni í 1 klst, þvoðu svo með þvottaefni eins og venjulega.
Ryð eða járnblettir. Stráðu salti á blettinn og kreistu síðan sítrónusafa yfir efnið og láttu liggja á efinu í nokkra tíma og þvoðu síðan samkvæmt þvottaleiðbeiningum á miðanum á vörunni.
Olíumálning. Notaðu svamp sem hefur verið vættur með terpentínu (eða penslasápu). Þvoðu síðan samkvæmt þvottaleiðbeiningum.
Kertavax. Skafðu vaxið af efninu og leggðu síðan pappír eða viskastykki yfir og undir blettinn. Þrýstu heitu straujárni á blettinn á bakhliðinni.
Súkkulaði. Þegar súkkulaðið er harnað, notið hníf til að taka frá eins mikið af súkkulaðinu og hægt er. Hellið blettahreinsi yfir blettinn og látið liggja í efninu í nokkrar mínútur. Heppilegast er að þvo efnið/bómullina úr köldu vatni (ekki heitu vatni).


